Rússar sakaðir um að beita efnavopnum

Joe Biden sagði að beiting efnavopna myndi hafa afleiðingar fyrir …
Joe Biden sagði að beiting efnavopna myndi hafa afleiðingar fyrir Vladimír Pútín. AFP

Bandaríkjamenn saka Rússa um að beita efnavopni sem notað var í fyrri heimsstyrjöldinni í viðleitni sinni til þess að komast áfram í sókn sinni inn í Úkraínu.

Dimitry Peskow talsmaður Kremlverja segir engan fót fyrir ásökunum en samkvæmt ásökun Bandaríkjamanna er um að ræða eiturefnið Chloropcrin sem notað er til þess að hrekja úkraínska hermenn úr stöðum sínum.

Efnið ertir skilningarvit, lungu og hörund og getur leitt til ógleði, uppkasta og niðurgangs. Er það einna helst þekkt vegna notkunar þess á víglínu fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar upp var komin pattstaða. Þá segir einnig að Rússar hafi reglulega beitt táragasi í hernaðinum.

Joe Biden talaði um afleiðingar

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði Rússa við að beita efnavopnum í mars árið 2022 einungis nokkrum vikum eftir að innrás Rússa hófst í Úkraínu.

Sagði hann af því tilefni að Vladimír Pútín Rússlandsforseti myndi greiða dýru verði ef hann heimilaði notkun efnavopna.

„Við munum bregðast við ef hann notar þau. Viðbrögðin munu fara eftir því hvers eðlis efnavopnin eru," er haft eftir Biden árið 2022. 

Eins er fjöldi frásagna af því að Rússar notist við handsprengjur fylltar af táragasi á víglínunni.

Í frétt Reuters segir að 500 Úkraínumenn hafi þurft á læknisaðstoð að halda eftir að hafa orðið fyrir áhrifum af táragasi. Þar af er einn hermaður sagður hafa látist vegna áhrifa þess.

BBC segir frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert