Gera líklega kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu. mbl.is/Arnþór

Gæsluvarðhald yfir karlmanni vegna skotárásarinnar í Úlfarsárdal í byrjun janúar rennur út á morgun og að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, er gert ráð fyrir því að gerð verði krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum.

Héraðsdómur Reykjavíkur framlengdi gæsluvarðhald yfir manninum í byrjun desember en öðrum manni sem var í gæsluvarðhaldi var sleppt.

Tveir í haldi vegna skotárásar í Hafnarfirði

Gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum í tengslum við skotrárásina í Álfholti í Hafnarfirði á aðfangadagkvöld rennur út á föstudaginn.

Mennirnir tveir voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna málsins en ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort óskað verði eftir framlengingu á gæsluvarðhaldinu. Að sögn Gríms er málið enn í rannsókn og miðar henni eðlilega.

Hann segir að eitt því sem er verið sé að skoða er hvort skotárásin tengist öðrum skotárásum sem áttu sér stað undir lok síðasta árs.

Grímur sagði í samtali við mbl.is rétt fyrir áramótin að hann útilokaði ekki að fleiri yrðu handteknir vegna málsins. „Það hafa ekki orðið fleiri handtökur en rannsóknin getur alveg þróast þannig að það þurfi að handtaka fleiri,“ segir Grímur við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert