Halla Hrund tekur forystu í könnun

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi.
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Óttar

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri mælist með tæplega 29% fylgis í nýjustu skoðanakönnun Prósents og tekur þannig nokkra forystu í kapphlaupinu til Bessastaða, þó ekki sé raunar tölfræðilega marktækur munur á henni og Baldri Þórhallssyni prófessor, sem mælist með 25% fylgi.

Stóru fréttirnar eru hins vegar þær að fylgi Katrínar Jakobsdóttur fv. forsætisráðherra minnkar skarpt milli vikna samkvæmt niðurstöðum Prósents. Hún mælist nú með 18% fylgi, en var með 24% í liðinni viku. Jón Gnarr leikari rekur lestina með 16%.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið; hún var gerð frá þriðjudegi fram á sunnudag, en á meðan heltust tveir frambjóðendur úr lestinni og þrír bættust óvænt við. Ekki var um þá spurt í könnuninni.

Líkt og nánar er gerð grein fyrir í blaðinu í dag eru fylgissveiflur miklar, en vikmörk há og endanlegur listi frambjóðenda mun ekki liggja fyrir fyrr en á fimmtudag.

Katrín talin líklegust

Morgunblaðið lét því spyrjast fyrir um það hvaða frambjóðanda fólk teldi líklegastan til þess að fá flest atkvæði í forsetakjörinu 1. júní. Þau svör eru verulega frábrugðin hinum um hvern fólk kvaðst styðja í augnablikinu.

Katrín Jakobsdóttir hefur þar afgerandi forystu, en 35,3% töldu hana sigurstranglegasta. Næstur kom Baldur Þórhallsson með 29,5%. Sá munur er tölfræðilega marktækur; lægsta mögulega gildi Katrínar miðað við vikmörk er hærra en hæsta mögulega gildi Baldurs.

Halla Hrund kemur þar töluvert fyrir aftan með 22,1%, en Jón Gnarr töldu aðeins 7,4% hljóta flest atkvæði þegar kemur að kjördegi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert