Um 70 skjálftar hafa mælst

Eldey rís úr sæ suðvestur af Reykjanesi.
Eldey rís úr sæ suðvestur af Reykjanesi. Ljósmynd/Páll Stefánsson

Töluvert hefur dregið úr jarðskjálftahrinu sem hófst nærri Eld­ey á Reykja­nes­hrygg á níunda tímanum í gærkvöldi.

Á níunda tímanum í gærkvöldi mældist jarðskjálfti af stærðinni 3,5 og rúmri klukkustund síðar mældist skjálfti af stærðinni 3,2. Um það bil 70 skjálftar hafa mælst frá því hrinan hófst.

„Það koma reglulega skjálftahrinur á þessu svæði og síðast í febrúar þar sem um 100 skjálftar mældust,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Að sögn Böðvars fækkaði skjálftum þegar leið á nóttina en ekki er víst að skjálftahrinan tengist þeim atburðum sem eru í gangi við Sundhnúkagíga og við Svartsengi.

Gosið heldur áfram að malla

Hann segir allt við það sama í gosinu við Sundhnúkagíga og að það haldi áfram að malla. Böðvar segir að það hafi mælst um 40 jarðskjálftar á svæðinu síðastliðinn sólarhring. Landrisið við Svartsengi er stöðugt og eru nú um tólf milljónir rúmmetra af kviku í kvikuhólfinu. Kvikuhlaup hefur orðið þegar kvikumagnið er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert