Isavia íhugar viðbrögð við sýknudómi Hæstaréttar

Wow air varð gjaldþrota 28. mars 2019.
Wow air varð gjaldþrota 28. mars 2019. Haraldur Jónasson/Hari

Isavia situr nú yfir sýknudómi Hæstaréttar yfir íslenska ríkinu og flugvélaleigunni ALC. Enn er óljóst hvort, og þá hvernig, fyrirtækið mun bregðast við.

mbl.is greindi frá því í gær að flug­véla­leig­an ALC og ís­lenska ríkið hefðu verið sýknuð af kröfum Isa­via í Hæsta­rétti en málið snýr að kyrr­setn­ingu fyr­ir­tæk­is­ins á Air­bus-þotu gegn skuld­um flug­fé­lags­ins Wow air.

„Isavia er að fara yfir dóminn og m.a. að meta hvort félagið þurfi með einhverjum hætti að bregðast við honum,“ segir í skriflegu svari frá Isavia við fyrirspurn mbl.is.

Fyrirtækið hyggst ekki tjá sig frekar um dóminn eins og er.

Kyrrsettu flugvél sem Wow hafði leigt

Árið 2019 aftraði Isa­via þotu ALC för frá Keflavíkurflug­velli vegna gjald­fall­inna krafna á hend­ur Wow air, sem hafði leigt þot­una en bú flugfélagsins hafði verið tekið til gjaldþrota­skipta.

Var það gert á grund­velli þágild­andi laga um loft­ferðir.

Héraðsdóm­ur Reykjaness heim­ilaði inn­setn­ingu í þot­una sem ALC krafðist og var henni í fram­hald­inu flogið af landi brott.

Isa­via reisti þá bóta­kröfu á hend­ur ALC einkum á hlut­lægu bóta­regl­unni í lög­um um aðför frá 1989 en gagn­vart hinum stefnda í mál­inu, ís­lenska rík­inu, var byggt á sakarreglunni (almennu skaðabóta­regl­unni).

Gert að greiða fjórar milljónir í málskostnað og rekstur

ALC höfðaði þá gagn­sök gegn Isa­via, byggða á því að sú hátt­semi Isa­via að hindra brott­för Air­bus-vél­ar­inn­ar frá Kefla­vík­ur­flug­velli hefði verið ólög­mæt og sak­næm.

Er að því kom að meta hvort um­deild aðfar­ar­gerð fengi staðist taldi Hæstirétt­ur að ríku­leg­ar kröf­ur yrðu gerðar til laga­heim­ild­ar sem fæli í sér greiðsluþving­un, einkum við þær aðstæður þar sem kröf­ur beind­ust að eig­anda loft­fars sem ekki hefði átt í kröfu­rétt­ar­sam­bandi við rekstr­araðila flug­vall­ar.

Isa­via var sýknað af kröfu ALC um tvær greiðslur en að öðu leyti var kröf­um ALC vísað frá héraðsdómi við meðferð máls­ins þar. Var Isa­via að lok­um dæmt til að greiða ALC sam­tals þrjár millj­ón­ir króna vegna rekst­urs máls­ins á öll­um dóm­stig­um. Að lok­um var Isa­via gert að greiða ALC eina millj­ón króna í máls­kostnað fyr­ir Hæsta­rétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert