„Málin eru að þokast eitthvað áfram“

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, (til vinstri) og Unnar Örn Ólafsson, …
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, (til vinstri) og Unnar Örn Ólafsson, formaður Fé­lags flug­mála­starfs­manna, í Karphúsinu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samningafundur í kjaradeilu flugmálastarfsmanna á Keflavíkurflugvelli og Isavia hefst klukkan 10 í dag í Karphúsinu en fundi var frestað á sjöunda tímanum í gærkvöld. Vinnustöðvanir hefjast á fimmtudaginn ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma.

„Við erum að reyna að grípa öll þau púsl sem er búið að kasta upp og láta þau lenda á réttum stað. Heildarmyndin er ekki komin ennþá en það er mikill vilji að ná henni,“ segir Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, við mbl.is.

Spurður hvort eitthvað hafi þokast áfram á fundinum í gær segir Þórarinn:

„Málin eru að þokast eitthvað áfram þegar fólk er að tala saman. Það er verið að reyna að hreyfa við málum en það þarf svolítið meira til. Við þurfum að ná betur saman til að klára þetta og við sjáum ekki alveg fyrir endann á því.“

Þórarinn segir að hans menn séu tilbúnir í langan fund í dag ef það sjáist fyrir að árangur sé að nást í deilunni.

Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli eiga að hefjast á fimmtudaginn. Ótímabundið yfirvinnu- og þjálfunarbann gildir frá klukkan 16 þann dag ásamt tímabundnum og tímasettum vinnustöðvunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert