Halla Hrund heldur kosningafund í Kaupmannahöfn

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi.
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Brynjólfur Löve

Halla Hrund Logadóttir er nú stödd í Kaupmannahöfn. Þar mun hún halda opinn fund í Jónshúsi klukkan 16.30 á dönskum tíma. Í samtali við mbl.is segir Halla Hrund forsetann vera forseta allra Íslendinga sama hvar fólk býr.

„Forsetinn er forseti allra Íslendinga, við erum að sækja Íslendinga heim og hér er eru mjög margir Íslendingar. Auðvitað getur maður ekki farið víða en okkur fannst sjálfsagt að reyna að verða við þeim óskum að hitta fólk hér líka og sinna áhuga og hagsmunum Íslendinga alveg eins og forseti á að gera,“ segir Halla Hrund.

Segir viðtökurnar hafa verið ótrúlegar

Halla Hrund lenti í Kaupmannahöfn í morgun og flýgur heim til Íslands aftur í kvöld. Hún hefur nýtt tímann í Kaupmannahöfn og heimsótt Íslendinga í borginni sem hafa unnið að ýmsum verkefnum með góðum árangri.

Hún segir rauða þráðinn í heimsóknum dagsins vera hvað Íslendingar standi þétt saman og eru tilbúnir að hjálpa hvor öðrum.

„Þessi samheldni og þátttaka, sem eru akkúrat gildin sem ég tala fyrir í kosningabaráttunni. Hvað það skiptir miklu máli að við séum að taka þátt og byggja upp hluti því þannig verða verðmæti og tækifæri til.“

Kosningafundurinn verður haldinn í Jónshúsi og segir Halla Hrund viðtökurnar búnar að vera ótrúlegar. Hún kveðst spennt fyrir því að hitta kjósendur í Kaupmannahöfn áður en haldið verður heim á leið.

Margir kjósendur á Norðurlöndunum

Samkvæmt Þjóðskrá voru 49.870 íslenskir ríkisborgarar með skráð lögheimili erlendis þann 1. desember.

Flestir voru skráðir í Danmörku eða alls 11.982 einstaklingar. Næst flestir eða 9.250 einstaklingar voru skráðir í Noregi og í þriðja sæti var Svíþjóð þar sem 9.046 íslenskir ríkisborgarar voru skráðir með lögheimili.

61,9% íslenskra ríkisborgara sem eru með skráð lögheimili erlendis eru því búsettir á Norðurlöndunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert