14 til 17 milljarða kr. tap vegna skerðinga

Landsvirkjun.
Landsvirkjun. Ljósmynd/Landsvirkjun

Stjórnendur fyrirtækja í orkusæknum iðnaði telja að 14 til 17 milljarða króna útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapast á fyrstu mánuðum ársins vegna raforkuskerðingar Landsvirkjunar. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins.

Slakur vatnsbúskapur Landsvirkjunar varð til þess að fyrirtækið gat ekki framleitt næga raforku. Er þetta mun meira tap en áætlað var í janúar sl. þegar útlit var fyrir að þjóðarbúið yrði af átta til tólf milljörðum vegna skerðinga á raforku. Er ástæðan sú að skerðingarnar hafa staðið í lengri tíma og verið víðtækari en áður, en einnig hefur afurðaverð hækkað.

Útflutningstekjur vegna skerðinganna sem nú er talið að hafi tapast eru 3,7% til 4,5% af útflutningstekjum orkusækins iðnaðar í fyrra og ef miðað er við efri mörk matsins svarar tapið til tæplega 5% af öllum útflutningi sjávarafurða á síðasta ári.

„Mest er tapið hjá álverunum en þar er það metið 9-10 [milljarðar kr.]. Það er um 2,8%-3,1% af útflutningstekjum áliðnaðarins á síðastliðnu ári. Skerðingarnar hafa bein áhrif til lækkunar tekna en einnig óbein vegna áhrifa þeirra á viðskiptasamninga,“ segir í greiningu SI. Einnig eru tapaðar útflutningstekjur gagnavera metnar á þrjá til fimm milljarða.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir ekki hægt að skýra þessa stöðu eingöngu með því að vísa til lélegs vatnsbúskapar. „Ástæðan fyrir þessu er viðvarandi aðgerðaleysi um árabil í orkumálum,“ segir hann. „Þetta aðgerðaleysi kostar samfélagið býsna mikið. Við erum í þeirri stöðu að þetta verður væntanlega staðan næstu fjögur til fimm árin eða svo þar til ný eða meiri orka kemur inn á kerfið,“ segir Sigurður.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert