Kristinn Hauksson fæddist á Sauðárkróki 6. október 1947. Hann lést á Landspítalanum 19. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Haukur Vigfússon, sjómaður og smiður, frá Gimli, Hellissandi, f. 27. desember 1913, d. 20. apríl 1995 og Steinunn Jóhannsdóttir kennari frá Löngumýri í Skagafirði, f. 19. febrúar 1917, d. 12. febrúar 2003.

Systkini Kristins eru: Jóhann, f. 24. júlí 1944, d. 7. maí 1987, Sigurlaug, f. 28. júlí 1949 og Vigfús Haukur, f. 6. júlí 1955.

Kristinn giftist 26. desember 1967 Helgu Ingibjörgu Friðriksdóttur, f. 10. september 1948. Hún er fædd á Sauðárkróki, dóttir hjónanna Friðriks Margeirssonar, f. 28. maí 1919, d. 12. júní 1995 og Öldu Ellertsdóttir, f. 13. maí 1926.

Börn Kristins og Helgu eru: 1) Alda Snæbjört, f. 7. júlí 1968. Maki Jón Daníel Jónsson. Börn þeirra eru Sandra Björk, Kristinn Gísli og Jökull Smári. 2) Steinunn, f. 12. júlí 1975. Maki Ingiberg Baldursson. Börn þeirra eru Theódóra, Alexander Orri, Dagbjört, Viktoría Líf, Daníel Orri og Róbert Leó. 3) Friðrik, f. 25. nóvember 1976. Maki Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir. Dætur þeirra eru Helga Karólína og Birna Salóme.

Barnabarnabörn eru sjö talsins.

Kristinn ólst upp í Lauftúni í Skagafirði. Hann var lærður húsasmíðameistari og vann við húsasmíði alla ævi. Hann bjó í Skagafirðinum til ársins 1984, þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og síðar í Garðabæinn þar sem hann bjó til æviloka.

Útför Kristins fer fram í Vídalínskirkju í dag, 2. maí 2024, kl. 13.

Eins og ágætur vinur minn einn komst að orði við ástvinamissi þá slitnaði í mér strengur og finnst mér það góð lýsing á tilfinningum mínum við fráfall tengdaföður míns, Kristins Haukssonar.

Ég ætla að reyna að skrifa nokkrar línur um hann Kristin og kynni mín af honum í þau rúmu 40 ár sem við vorum samferða í þessu lífi.
Árið 1984 fór ég að venja komur mínar í Birkihlíð 31, fyrst um sinn aðallega seint á kvöldin þegar fáir voru á ferli, en þegar feimnin bráði af mér þá skipti ekki máli hvort það var bjartur dagur eða kvöld þegar ég spurði eftir henni Öldu minni.
Einn ágætan dag um vorið kom ég við í Birkihlíðinni og bankaði en enginn kom til dyra en eftir smástund þá heyri ég umgang á bak við hús og athugaði hvort þar væri einhver og þarna var pabbi hennar Öldu að stinga upp kartöflugarðinn í vorblíðunni. Ég heilsaði og spurði um hana Öldu og sagði hann mér að hún hefði skroppið eitthvað frá en væri væntanleg og bauð hann upp á kaffi í eldhúsinu á meðan ég væri að bíða og þar áttum við okkar fyrsta kaffispjall í eldhúsinu hjá þeim hjónum sem síðar urðu æði mörg.
Þegar Helga og Kristinn fluttu til Reykjavíkur og Alda var farin líka á eftir þeim þá var ég ekki í rónni fyrr en ég var kominn suður til hennar. Ég flutti til þeirra á Laugalækinn og Kristinn og Helga reyndust mér sem foreldrar.
Á þessum tíma gerðist ég handlangari í smíðavinnu hjá Kristni og vann meðal annars með þeim bræðrum Kristni, Jóhanni og Vigfúsi hjá byggingarfyrirtækinu Álftárósi þar sem Kristinn starfaði sem verkstjóri í mörg ár.
Kristinn var eftirtektarsamur á mannlíf og umhverfi sitt og hafði gaman af lífinu og þótti honum afskaplega gaman að því að ganga svolítið fram af fólki og þá sér í lagi krökkunum sínum og Helgu. Ég man eftir prakkaraskap í honum t.d. með að stökkva svokallað gleðistökk fyrir börnin sín niðri á Laugavegi í margmenni og að telja barnabörnum sínum trú um að hann gæti ræktað teygjur í buxnavösunum sínum.
Hann hafði einstakt lag á að koma með sértæk orð og nöfn um hluti og manneskjur eins og morgunkornin Jossa og Tossa (cheerios og vitos) og fólksnöfnum gat hann snúið út úr og kallaði t.d. Helgu oft Inguló af því að hún heitir Ingibjörg að seinna nafni.
Kristinn var kletturinn í fjölskyldunni og var alltaf hægt að leita til hans eftir ráðum og voru þær ófáar ferðirnar sem hann kom til að hjálpa okkur börnunum sínum þegar kom að framkvæmdum af öllu tagi enda var vandfundinn betri fagmaður og fannst manni vinnubrögð hjá ýmsum öðrum vera skörinni lægri þar sem maður var góðu vanur.
Hann átti alltaf í sérstöku sambandi við barnabörnin sín og var þeim ávallt stoð og stytta, og kom með ráð og hjálp þegar eftir því var leitað og eins og áður segir þá átti hann það til oftar en ekki að stríða þeim þegar tækifæri gafst til og hafði gaman af að segja þeim frá prakkarastrikum sem hann hafði framið í æsku og á fullorðinsárum.
Fjölskyldan hefur í gegnum tíðina haft gaman af veiðiferðum og ýmiskonar útilegum og eru það sælustundir sem ég geymi í minningunni með gleði í hjarta og ég veit að við öll höfum minningar úr þeim ferðum sem munu ylja um ókomna tíð.
Kristinn hafði gaman af tónlist og hlustaði mikið á allskonar tónlist og hafði gaman af að leyfa manni að heyra góða tónlist og hækkaði hann alltaf vel í henni og stillti bassann í botn. Hann var alæta á músík og man ég að hann fór með mér á tónleika með þungarokkssveitinni Uriah Heep á Hótel Íslandi fyrir mörgum árum og skemmtum við okkur mjög vel eins og ávallt þegar við félagarnir skemmtum okkur saman.
Elsku Helga, Alda, Steinunn og Friðrik og við öll hin sem höfum góðar minningar til að ylja okkur við, megi góður guð gefa okkur styrk í sorginni.
Elsku Kristinn, ég er þakklátur og fullur af elsku yfir að hafa fengið að kynnast þér í lífinu og þakklátur fyrir að þú tókst mig upp á þína arma og stoltur yfir því að hafa getað kallað þig tengdapabba og að börnin mín hafi haft þig í lífi sínu sem afa þeirra.

Takk fyrir allt og ég trúi því að þú verðir í fremstu röð í móttökunni þegar minn tími kemur.

Megi guð vaka yfir þér og þínum.


Jón Daníel Jónsson.