2. umferð: Sögulegt hjá Söndru, Karen og Berglind í 100

Sandra María Jessen hefur farið einstaklega vel af stað á …
Sandra María Jessen hefur farið einstaklega vel af stað á tímabilinu og skorað fimm fyrstu mörk Þórs/KA í Bestu deildinni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sandra María Jessen skoraði sína fyrstu fernu á ferlinum í efstu deild kvenna í fótbolta á laugardaginn þegar Þór/KA sigraði FH, 4:0, í annarri umferð deildarinnar á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Hún er jafnframt fyrsti leikmaður Akureyrarliðsins til að skora fjögur mörk í leik í deildinni í fimmtán ár, eða frá 2009. Það ár skoraði hins vegar Mateja Zver fimm mörk í leik gegn Keflavík og Rakel Hönnudóttir skoraði tvívegis fjögur mörk fyrir Þór/KA, gegn ÍR og Keflavík.

Sandra hefur nú skorað 94 mörk fyrir Þór/KA í efstu deild, öll fimm mörk liðsins á þessu tímabili, og hún bætir markamet sitt fyrir liðið með hverju marki.

Sandra hefur áður skorað fjórar þrennur í deildinni:

2012 gegn Selfossi í sigri, 9:0.
2016 gegn ÍA í sigri, 4:0
2017 gegn Grindavík í sigri, 5:0
2018 gegn Grindavík í sigri, 5:0

Karen María Sigurgeirsdóttir, samherji Söndru, lék sinn 100. leik í efstu deild gegn FH. Þar af eru 83 leikir fyrir Akureyrarliðið og 17 fyrir Breiðablik.

Berglind Rós Ágústsdóttir, til hægri, í 100. leiknum í efstu …
Berglind Rós Ágústsdóttir, til hægri, í 100. leiknum í efstu deild í gær. mbl.is/Óttar

Berglind Rós Ágústsdóttir, núverandi fyrirliði Vals, lék líka sinn 100. leik í deildinni á laugardaginn, þegar Valur vann Þrótt 2:1. Þar af eru 50 leikir fyrir Fylki, fimm fyrir Aftureldingu og nú 45 fyrir Val.

Þegar Amanda Andradóttir skoraði sigurmark Vals gegn Þrótti, 2:1, var það mark númer 2.100 hjá Val í efstu deild kvenna. Ekkert félag hefur skorað fleiri mörk í deildinni en Breiðablik kemur næst með 2.024 mörk.

Breiðablik hefur eftir sigurinn á Tindastóli, 3:0, fengið nákvæmlega 1.500 stig í efstu deild frá upphafi. Þar er Breiðablik með nauma forystu á Val sem hefur fengið 1.490 stig í deildinni frá upphafi.

Birta Birgisdóttir úr Víkingi og Mist Funadóttir úr Fylki skoruðu báðar sitt fyrsta mark í efstu deild þegar liðin skildu jöfn, 2:2, í Fossvogi.

Birta Birgisdóttir, lengst til vinstri, fagnar fyrsta marki sínu í …
Birta Birgisdóttir, lengst til vinstri, fagnar fyrsta marki sínu í efstu deild í leiknum við Fylki. mbl.is/Óttar Geirsson

Úrslit­in í 2. um­ferð:
Þróttur R. - Valur 1:2
Keflavík - Stjarnan 2:3
Breiðablik - Tindastóll 3:0
FH - Þór/KA 0:4
Víkingur R. - Fylkir 2:2

Marka­hæst­ar:
5 Sandra María Jessen, Þór/KA
3 Am­anda Andra­dótt­ir, Val
3 Vig­dís Lilja Kristjáns­dótt­ir, Breiðabliki
2 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
2 Hannah Sharts, Stjörnunni
2 Sigdís Eva Bárðardóttir, Víkingi

Næstu leik­ir:
2.5. Valur - Víkingur R.
2.5. Þór/KA - Þróttur R.
2.5. Fylkir - Keflavík
3.5. Breiðablik - FH
3.5. Stjarnan - Tindastóll

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert