Fáum högg og mótlæti en höldum áfram

Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA.
Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Ég er mjög ánægður með byrjunina hjá okkur, spilum vel og við skorum mark en fáum svo tvö mörk á okkur og mér finnst að það verði að skoða það aðeins, vil ekki segja hvað ég er að hugsa núna.  Hvet ykkur til að skoða það,“ sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA eftir 4:2 tap fyrir Víkingum í Víkinni í dag þegar leikið var í 4. umferð efstu deildar karla í fótbolta.

„Við eigum svo að fá að minnsta kosti tvö víti, þegar ekkert var dæmt en ég ætla að einbeita mér að mínu liði.  Við stóðum okkur vel, skoruðum tvö mörk á útivelli gegn besta liðið Íslands, sköllum í stöng og eigum að fá einhver víti.  Svo það er flott og þó við fáum á okkur högg og lendum í mótlæti þá höldum við áfram allan leikinn og það erum við sem hefðum getað skorað fleiri mörk í lokin.   Ég er því ánægður með liðið og hvað við leggjum í þetta og ef þetta er það sem koma skal þá fara stigin að koma svo ég hef engar áhyggjur.“

KA bíður enn eftir sínum fyrsta sigri eftir 1 jafntefli í 4 leikjum.  „Við byrjum mótið með ágætis frammistöðu en fáum ekki stig, sem er vont en okkur finnst við eiga skilið miðað við frammistöðuna en við höldum bara áfram.  Við vissum að þetta yrði alvöru leikur og mættum með kassann úti.  Mættum og gerðum vel en það er það sem við þurfum að gera.  Við erum í mótlæti núna og þurfum að standa saman.  Klefinn og allir leikmenn eru á því, við ætlum að gera þetta saman og halda áfram, þá munu stigin fara að koma.   Svo er leikmannahópurinn að vera á betri stað, við erum að fá menn inn sem eru komast í gott form og það er líka stutt í mikilvæga leikmenn svo við erum jákvæðir með framhaldið,“ bætti þjálfarinn við.

Víkingsliðið alveg nógu gott og þarf ekki aðstoð

Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA var ánægður með margt hjá sínum mönnum en ekki allt sem viðkom leiknum.  „Mér fannst við koma sterkt inní leikinn, vorum þéttir í leik okkar og refsuðum þegar við fengum boltann, sem gekk upp í byrjun,“ sagði fyrirliðinn eftir 4:2 tapið fyrir Víkingum.  

„Mér finnst þeir svo fá gefins víti.  Það virðist vera mjög auðvelt að flauta í aðra áttina en við fáum líka óþarfa tvö mörk á okkur, sem mér finnst ekki sanngjarnt miðað við hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik þegar við bjuggum mikið til.“

„Síðan í seinni hálfleik var leikurinn eins og í lausu lofti en óþarfi að fá á sig fleiri mörk.  Mér finnst að við hefðum þá átt að fá tvö víti en, eins og ég sagði, virðist vera dæmt í aðra áttina hérna.   Við vitum hvað Víkingur getur og liðið er nógu  gott til að vera ekki að fá aðstoð.“

KA er í 10. sæti deildarinnar en fyrirliðinn hefur trú á liðinu.  „Við náum okkur pottþétt á strik í deildinni ef við spilum svona, með ákefð og pressu, stöndum saman og erum þéttir, þá koma stigin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert