Hjartslátturinn fór aðeins upp

FH-ingar fagna í dag eftir að Kjartan Kári Halldórsson skoraði …
FH-ingar fagna í dag eftir að Kjartan Kári Halldórsson skoraði fyrsta mark leiksins á Akranesi. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Heimir Guðjónsson þjálfari FH var vitaskuld kátur eftir sigur á ÍA, 2:1, á útivelli í Bestu deild karla í fótbolta í Akraneshöllinni í dag. 

„Það er geggjað að vinna á Akranesi. Þetta er erfiður útivöllur. Skaginn er með gott lið sem er búið að skora mikið af mörkum og spila vel.

Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik, spiluðum gríðarlega vel og settum þá undir mikla pressu. Við sköpuðum okkur góðar opnanir, skoruðum gott mark og vorum klaufar að klára ekki leikinn í fyrri hálfleik.

Skaginn kemur alltaf til baka og þeir eru góðir í þessum fyrirgjöfum og Viktor er frábær á fjærstönginni. Við misstum hann aðeins þar. Við byrjuðum seinni hálfleikinn svo ekki sérlega vel, en komum okkur inn í þetta og Logi skoraði frábært mark,“ sagði Heimir við mbl.is

Kjartan Kári Halldórsson með boltann í dag.
Kjartan Kári Halldórsson með boltann í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Kjartan Kári Halldórsson skoraði fyrsta mark leiksins úr aukaspyrnu af 30 metra færi eða svo. Hann er kominn með tvö mörk á leiktíðinni eftir að hafa aðeins skorað eitt allt síðasta tímabil. 

„Hann er alltaf að æfa sig í að taka aukaspyrnur á æfingasvæðinu. Hann er frábær spyrnumaður og hann sýndi það í dag. Auðvitað viljum við að þeir sem spila þessar fremstu stöður séu að skora en vandamál FH er ekki að skora, það er meira varnarleikurinn. Hann hélt vel í dag.“

FH var manni færri á lokakaflanum og Skagamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna. „Það var bætt næstum átta mínútum við og hjartslátturinn fór aðeins upp, en mér fannst þeir samt ekkert svakalega líklegir.“

Alls fóru fimmtán gul spjöld á loft í dag og tvö rauð. Heimir var sáttur við dómgæsluna. „Mér fannst þetta vel dæmdur leikur og það var mikið tekist á. Þetta var ekki grófur leikur en þegar þú spilar við Akranes þarftu að vera með þessi grunnatriði á hreinu, við vorum það. Það voru átök á milli manna út um allan völl og mér fannst hann leysa þetta vel.“

Ísak Óli Ólafsson úr FH og Oliver Stefánsson hjá ÍA fengu báðir tvö gul spjöld og þar með rauð undir lokin. 

„Ég veit ekki hvað gerðist með Oliver, en Ísak var pínu klaufalegur að fara í bakið á honum á gulu spjaldi þegar boltinn var að fara upp í horn. Það hefði verið betra að vera með kaldan haus og halda manninum þar. Mér fannst Ísak samt frábær í þessum leik og hann réð mjög vel við Viktor, á meðan margir aðrir hafsentar lenda í miklum vandræðum með hann,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert