Menn svindla á hlaupunum sínum

Danijel Dejan Djuric skoraði tvö mörk fyrir Víkinga í 4:2 …
Danijel Dejan Djuric skoraði tvö mörk fyrir Víkinga í 4:2 sigri á KA. mbl.is/Óttar Geirsson

Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga var sáttur við sigurinn þó aðeins hafi vantað uppá í 4:2 sigri á KA í Víkinni í dag þegar leikið var í 4. umferð efstu deildar karla í fótbolta.

„Ef ég ætti að velja eitthvað til að lenda ekki undir þá er það KA en við svöruðum því mjög vel, vorum sterkir, skipulagðir í leikplaninu enda uppskárum við fyrir það.  Svo gerist í seinni hálfleik eins og oft gerist, að hitt liðið fer sparka boltanum langt og vera með læti svo að okkur tókst illa að loka leiknum.  Nýttum færin illa og líka færi til að búa til færi líka illa svo maður var ekki á rónni fyrr en leikurinn var flautaður af,“ sagði Arnar eftir leikinn.

Víkingar voru ekki eins öflugir er leið á seinni hálfleikinn og vörnin átti í basli án þess að fá mikinn stuðning og þjálfarinn segir tölfræðina staðfesta það. „Ég kalla það að menn “svindli” á hlaupunum sínum til baka, treysta bara á að varnarmenn sínir sjái um þetta og þrumi  svo fram, sagði Arnar. 

„Við þorðum einhvern veginn ekki að standa saman til að vera með yfirtölu fram völlinn svo þetta varð mikið einn á móti einum barátta.  Engu síður er ég hrikalega ánægður með sigurinn en svona eru bara leikirnir. 

Ég held að tölfræðin hjá okkur fyrstu sextíu eða sjötíu mínúturnar sé alveg geggjuð  en svo dregur úr því, þá erum við oftast komnir með forskot og hin liðin tjalda öll sínu svo að leikurinn verður bara kaos,“ sagði Arnar. 

Leið vel a til ö

Danijel Dejan Djuric var öflugur auk þess að skora tvö af mörkum Víkinga í 4:2 sigrinum á KA og leið vel með þetta allt saman.  „Mér leið ógeðslega vel inni á vellinum alveg a til ö og ég held að það hafi sýnt sig inni á  vellinum,  sagði Danijel eftir leikinn.

„Ég var ekkert stressaður þegar KA-menn komust yfir, það var snemma í leiknum og við vorum alltaf að fara ýta meira á þá enda skorum við fjögur mörk.  Við erum bara þannig að við stjórnum oftast leikjunum, við erum þá alltaf að spila eins og við viljum og það er ógeðslega gott að vera í þannig liði í stað þess að vera alltaf að elta.

Við vonum að við höldum okkar striki, það er mikilvægt að byrja mótið vel og Arnar þjálfari segir oft að við þurfum að byrja vel í stað þess að vera elta önnur lið svo þetta er góð byrjun, bætti hann við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert