Enn skorar Sandra María

Leikmenn Þórs/KA fagna öðru marki Söndru Maríu Jessen í kvöld.
Leikmenn Þórs/KA fagna öðru marki Söndru Maríu Jessen í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór/KA og Þróttur áttust við í Boganum í dag í 3. umferð Bestu-deildar kvenna í fótbolta. Þór/KA vann 2:1 í nokkuð jöfnum leik. Með sigrinum kom Þór/KA sér í sex stig og liðið er í 3. sætinu sem stendur. Þróttur er við botninn með sitt eina stig.

Leikið var inni í Boganum en grasvöllur Þórs er ekki orðinn klár eftir langan kuldakafla á Akureyri fyrstu vikurnar í apríl.

Þróttur var sterkari aðilinn fram í miðjan fyrri hálfleik. Mest munaði um frábærar rispur Caroline Murray upp vinstri kantinn. Hún svoleiðis tætti þar upp trekk í trekk og kom hættulegum fyrirgjöfum inn í vítateig. Varnarmenn Þórs/KA voru vel á verði í öllum tilvikum og komust fyrstar í boltann. Einhver hálffæri litu svo dagsins ljós og þurfti Harpa Jóhannsdóttir í marki norðankvenna að taka á honum stóra sínum þegar Sierra Marie Lelii komst ein gegn henni.

Heimakonur komust smám saman betur inn í leikinn og á lokamínútum fyrri hálfleiks má segja að þær hafi verið í stórsókn. Hurð skall nærri hælum við mark Þróttar í nokkur skipti áður er Sandra María Jessen skoraði eina mark hálfleiksins. Hún slapp ein inn fyrir varnarlínu Þróttar og skilaði boltanum framhjá Mollee Swift í marki Þróttar. Staðan var því 1:0 í hálfleik og Sandra María Jessen komin með sex mörk í deildinni.

Eftir kortér í seinni hálfleik bætti Sandra María við öðru marki eftir að Lara Ivansua vann boltann af varnarmanni Þróttar. Lara komst upp að endamörkum og gaf fyrir á dauðafría Söndru Maríu.

Þróttur vaknaði loks við þetta mark og fór að sækja á ný. Liðin skiptust á sóknum og Þróttur fékk ákjósanleg færi til að skora en Harpa í marki Þórs/KA varði vel í tvígang áður en leiktíminn var allur. Caroline Murray náði loks að skora þegar uppbótatíminn var að klárast og lauk leiknum því 2:1.

Þór/KA vann því góðan sigur og þokaði sér upp í þriðja sætið, í bili a.m.k. Sandra María er komin með sjö mörk í þremur fyrstu leikjunum, öll mörk liðsins. Umræðan mun því enn á ný snúast um gæði hennar.

Þór/KA er hins vegar ekki eins manns lið og þar er valinn maður í hverju rúmi. Leikmenn þekkja sín hlutverk og skila þeim vel til liðsins. Skipstjórinn í brúnni veit hvað hann syngur og hefur ávallt fundið leiðir til að nýta sinn mannskap til fullnustu. Í dag var Agnes Birta Stefánsdóttir frábær í stöðu miðvarðar og Margrét Árnadóttir skilaði góðri vinnu sem aftasti miðjumaður. Hún hefur hingað til verið þekktust sem sóknarmaður. Í dag tefldi Þór/KA fram níu heimakonum og fimm aðrar voru á varamannabekknum. Þessi mannskapur er til alls vís og stór hluti yngri leikmannanna hefur sankað að sér titlum á leið sinni upp í meistaraflokk.

Þróttarkonur voru ekki endilega lakara liðið í leiknum en skilvirkni norðankvenna og þéttur og yfirvegaður leikur þeirra skildi liðin að. Caroline Murray var besti leikmaður Þróttar en kantmennirnir báðir voru öflugir. Markvörðurinn Mollee Swift varði nokkrum sinnum vel og gat lítið gert í mörkum Þórs/KA.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Þór/KA 2:1 Þróttur R. opna loka
90. mín. Lara Ivanusa (Þór/KA) á skot sem er varið Boltinn fer í varnarmann og beint til Mollee.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert