„Mættum með öll vopnin klár“

Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í kvöld
Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í kvöld mbl.is/Árni Sæberg

Björgvin Páll Gústavsson markvörður karlaliðs Vals í handbolta átti góðan leik og varði 18 skot þegar Valur vann Aftureldingu og jafnaði metin í undanúrslitaeinvígi liðanna í Íslandsmóti karla í handbolta. Mbl.is ræddi við Björgvin Pál strax eftir leik:

Þetta var stórsigur hjá ykkur Valsmönnum í kvöld?

"Já þetta var æðisleg skemmtun og frábær leikur af okkar hálfu í 60 mínútur sem sýndi hvað við erum bæði góðir og orkumiklir og hvað við höfum gaman af handbolta."

Margir hafa haft áhyggjur af valsmönnum í þessari úrslitakeppni sökum leikjaálags í Íslandsmóti og Evrópukeppni. Þessi úrslít sýna að Valsmenn þurfa ekkert frí eða hvað?

"Við tölum ekkert um þetta. Það eru aðrir að tala um þetta Evrópuálag. Eina Evrópuálagið sem er á okkur er á fjölskyldum okkar. Konan mín er heima með fjögur börn þegar ég er að leika mér í handbolta erlendis. Hún er reyndar ekki að kvarta heldur því það síðasta sem ég sá áður en ég steig upp í flugvél var að hún var búin að bjóða 8 börnum í mat þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af henni og ekki okkur heldur. Við erum bara að sækja góða orku út úr þessu öllu. Við erum að fá hérna stútfulla höll viku eftir viku og það er bara frábært."

Valsmenn fagna sigrinum í kvöld
Valsmenn fagna sigrinum í kvöld Arnþór Birkisson

Hvernig útskýrir þú svona stórsigur í leik númer tvö á móti liði sem þið töpuðuð fyrir í leik númer eitt?

"Orkustigið var stórkostlegt hjá okkur. Óskar Bjarni var líka búinn að undirbúa okkur frábærlega fyrir þennan leik. Við mættu með öll vopnin klár og það voru allir klárir í bátana. Svo kemur maður hér inn í þessa höll og það er bara Evrópufílíngur yfir þessu. Hér var nánast full höll, setið báðu megin. Það kom okkur á óvart því það eru forréttindi að vera Valsari og það er rándýrt líka. Það var fótboltaleikur úti, handboltaleikur inni og mikið að gerast. Það að fólk skuli alltaf mæta á alla þessa leiki og borga sig inn til að styðja okkur er algjörlega frábært og það er það sem kveikti í mér. Við vorum með bakið upp við vegg og 1:0 undir, þurftum á sigri að halda það vissu það allir. Þess vegna mættum við svona stemmdir því við vildum ekki fara 2:0 undir upp í Mosó."

Staðan er 1:1 og allt í járnum. Hvað þarf til að vinna Aftureldingu í Mosfellsbæ?

"Svona frammistöðu eins og í kvöld. Við erum skeppnur þegar við erum í þessum gír. Vandamálið er hinsvegar það að Afturelding er með frábært lið. Við höfum tapað oftar en einu sinni á þessu tímabilli og við höfum verið í vandræðum með þá, sérstaklega upp í Mosó. Við þurfum að hefna fyrir leikinn í mosó og mæta fullri höll af þeirra stuðningsmönnum. Við þurfum að fara þangað og sýna að við getum unnið það. Ef það tekst þá eigum við skilið að fara áfram og vonandi tekst það bara í næsta leik." sagði Björgvin Páll í samtali við mbl.is. .

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert