Eiginkonan ekki kvartað enn þá

Björgvin Páll Gústavsson á æfingu landsliðsins.
Björgvin Páll Gústavsson á æfingu landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er nóg að gera hjá landsliðsmarkverðinum Björgvini Páli Gústavssyni um þessar mundir. Hann stendur í ströngu hjá Val sem er í undanúrslitum Íslandsmótsins og kominn í úrslit Evrópubikarsins.

Þá er hann á leiðinni í tvo leiki með íslenska landsliðinu gegn því eistneska í umspili um sæti á HM.

„Þetta er eins og maður vill hafa það,“ sagði Björgvin við mbl.is. „Það er smá skrítið að fara í landsleiki í miðju einvígi í úrslitakeppni. Það þarf að skipta um umhverfi mjög hratt.

Maður var að skoða Aftureldingu í gær og svo Eistana í beinu framhaldi. Nú kemur maður sér í landsliðsgírinn,“ bætti hann við.

Björgvin á fjögur börn með eiginkonu sinni Karen Einarsdóttur. Álagið á henni er meira þegar Björgvin spilar þétt og fer reglulega í keppnisferðir erlendis.

„Það er talað um að það sé álag á mér en á meðan ég er úti er álagið meira á konunni. Það er varla álag að ég sé í handboltaferð. Hún nýtur þess og hefur ekki kvartað enn þá,“ sagði Björgvin.

Nánar er rætt við Björgvin í Morgunblaðinu sem kemur út á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert