Mögulega fyrsta skrefið að nýjum iðnaði í Noregi

Borpallar á norska olíuvinnslusvæðinu Johan Sverdrup í Norðursjó vestur af …
Borpallar á norska olíuvinnslusvæðinu Johan Sverdrup í Norðursjó vestur af Stafangri. AFP

Norsk stjórnvöld tóku í dag eitt skref til viðbótar í átt að umdeildum námugreftri á hafsbotni, með því að bjóða áhugasömum að tilnefna svæði sem talin yrðu eftirsóknarverð í fyrstu umferð af útgáfu leyfa.

Noregur er þegar stærsti framleiðandi olíu og gass í Vestur-Evrópu en gæti með þessu orðið fyrsta ríkið til að leyfa námugröft á sjávarbotninum.

Hafa stjórnvöld fært þau rök fyrir greftrinum að með honum minnki þörfin á að reiða sig á Kína og önnur kúgunarríki til að afla jarðefna fyrir endurnýjanlega orku.

Markar upphafið

„Þetta markar upphafið að einhverju sem gæti orðið nýr iðnaður á norska landgrunninu,“ segir Torgeir Stordal, forstjóri norsku landgrunnsstofnunarinnar, í yfirlýsingu.

Námugröftur á djúpsævi er umdeildur sökum mögulegra áhrifa á viðkvæm vistkerfi í hafinu.

Norska þingið ákvað samt sem áður í janúar að gefa grænt ljós á að hluti landgrunnsins yrði kannaður með námugröft að sjónarmiði.

Segjast stjórnvöld vilja auka þekkingu á svæðinu og hafa lagt áherslu á að tekið verði tillit til umhverfisins á öllum stigum ferlisins.

Lýsa áhyggjum af ákvörðuninni

Þá verði gröftur aðeins leyfður ef sýnt þykir fram á að leyfishafinn muni geta viðhaft hann á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Nokkur ríki, þar á meðal Frakkland og Bretland, hafa kallað eftir banni við námugreftri á djúpsævi. Evrópuþingið hefur einnig lýst áhyggjum af þessari ákvörðun norskra stjórnvalda.

„Fleira fólk hefur farið út í geim en á djúpsævi,“ sagði Kaja Lønne Fjærtoft, hjá Alþjóðasjóði villtra dýra (WWF) í Noregi, á ráðstefnu fyrr í apríl. Kallaði hún svæðið síðustu óbyggðir jarðar.

„En það sem við vitum er að djúpsævið okkar er afar mikilvægt fyrir okkur sem lifum hér á landi,“ bætti hún við og vísaði til hlutverks þess við framleiðslu súrefnis og bindingu koltvísýrings.

Kopar, sink og kóbalt

Norska landgrunnsstofnunin birti snemma á síðasta ári skýrslu þar sem niðurstöðurnar herma að verulegar auðlindir sé að finna á hafsbotninum, þar á meðal kopar, sink og kóbalt.

Efnin eru meðal annars nauðsynleg fyrir framleiðslu rafhlaða, vindtúrbína, tölva og farsíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert