Friðrik nýr sendiherra í Varsjá

Friðrik Jónsson tekur við af Hannesi Heimissyni.
Friðrik Jónsson tekur við af Hannesi Heimissyni. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Friðrik Jónsson hefur verið skipaður nýr sendiherra Íslands í Varsjá frá og með 1. ágúst. 

Þetta staðfestir Friðrik í samtali við mbl.is, en vísir.is greindi fyrst frá. 

Friðrik tekur við af Hannesi Heimissyni sem hefur starfað sem sendiherra Varsjá frá stofnun sendiráðsins árið 2022. Friðrik er útskrifaður úr Boston háskóla með meistaragráðu í alþjóðatengslum og stefnumótun og hefur starfað við utanríkismál í áratugi.

Friðrik starfaði áður sem formaður BHM frá 2021 til 2023 en hefur starfað sem sendifulltrúi hjá utanríkisráðuneytinu síðan 2023.

Mikilvægt sendiráð

„Pólland er eitt af stórlöndum Evrópu. Þetta er góð vinaþjóð okkar og hér er mikið af Pólverjum og Íslendingum af pólsku bergi brotnu sem búa á Íslandi,“ segir Friðrik.

Hann segir mikilvægt að samskipti við Pólland á sviðum viðskipta og menningar haldi áfram að dafna.

Verkefni sendiherrans í Varsjá eru jafn mörg og þau eru ólík. Auk Póllands eru Úkraína, Rúmenía og Búlgaría í umdæmi sendiráðsins. Pólland, Rúmenía og Búlgaría eru öll mikilvægir bandamenn Íslands í NATÓ og segir hann nándina við Úkraínu vera stórt verkefni.

„Það er gríðarlegur heiður að vera treyst fyrir verkefni eins og þessu.“

Tvífætlingar sem og ferfætlingar koma með

Spurður hvernig verkefnið leggist í hann segist hann bara vera spenntur.

„Ég er kampakátur og get bara ekki beðið eftir að taka til hendinni.“

Leggst þetta vel í fjölskylduna?

„Já mjög og hundarnir Bjartur og Skuggi eru mjög spenntir að fá að kynnast pólskri pulsumenningu,“ bætir hann við að lokum.

Hundarnir Bjartur og Skuggi eru spenntir fyrir pólsku pylsunum.
Hundarnir Bjartur og Skuggi eru spenntir fyrir pólsku pylsunum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert