Sakfelldir fyrir spörk og kylfu í höfuð

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás fyrir framan veitingastað í miðbæ Reykjavíkur árið 2021 og einnig brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.

Spörkuðu þeir í fórnarlamb sitt með þeim afleiðingum að það höfuðkúpubrotnaði og hlaut andlitsbeinabrot, meðal annars.

Annar þeirra var einnig sakfelldur fyrir aðra sérlega hættulega líkamsárás, eða fyrir að hafa ráðist að brotaþola og slegið hann ítrekað í höfuðið með kylfu. Sú árás var einnig gerð í miðbæ Reykjavíkur sama ár.

Sex og fjórtán mánuðir

Fyrir fyrrnefndu árásina hlaut annar mannanna sex mánaða skilorðsbundinn dóm og hinn hlaut fyrir báðar árásirnar 14 mánaða skilorðsbundinn dóm. Þeir voru dæmdir til að greiða brotaþola í fyrrnefndu árásinni um 2,2 milljónir króna í miskabætur, en hann hafði krafist um 6 milljóna króna í bætur.

Til refsiþyngingar horfir að háttsemi þeirra var háskaleg og grafalvarleg, að því er segir í niðurstöðu dómsins.

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Annar mannanna þarf jafnframt að greiða málsvarnarlaun verjanda síns upp á um 1,6 milljónir króna og hinn um eina milljón króna í sama kostnað.

Varðandi hina líkamsárásina sem annar mannanna framdi var hann dæmdur til að greiða brotaþola 800 þúsund krónur í miskabætur, en hann hafði krafist 1,2 milljóna króna í bætur. Auk þess þarf hann að greiða 450 þúsund krónur í málskostnað.

„Skeytingarleysi gagnvart brotaþolum“

„Ákærðu voru báðir ungir þegar brot þau voru framin sem þeir eru sakfelldir fyrir. Þeir hafa hvorugir verið sakfelldir fyrir ofbeldisbrot áður. Þó svo að nokkuð langt sé liðið frá atvikum og ákærðu kveði aðstæður sínar aðrar í dag er full ástæða til þess að leita leiða til að sporna gegn ofbeldisfullri hegðun sem þessari þar sem skeytingarleysi gagnvart brotaþolum og afleiðingum ofbeldis er algjört. Verður þeim því gert að sæta sérstöku eftirliti og umsjón, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga,” segir í dóminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert