Þið þurfið að bera ábyrgð á fyrirsögnunum

Erik ten Hag er talinn líklegri en áður til að …
Erik ten Hag er talinn líklegri en áður til að halda áfram hjá Manchester United. AFP/Glyn Kirk

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, ræddi mikið um framtíðarplönin hjá sér og félaginu á fréttamannafundi sínum í dag þar sem næsti leikur, gegn Crystal Palace, á mánudag, var aðal umræðuefnið.

Simon Stone, sérfræðingur BBC, segir að það hafi verið mjög áhugavert að hlusta á Hollendinginn ræða málefni Manchester United á fundinum en margir hafa talið fullvíst að ten Hag verði sagt upp störfum að tímabilinu loknu.

„Hann ræddi mikið um framtíðina og um sinn fimmta félagaskiptaglugga sem stjóri Manchester United í sumar. Þetta rímar við þá tilfinningu sem margir hafa fengið að undanförnu að Hollendingurinn fái tækifæri til að hefja næsta tímabil með liðinu," sagði Stone eftir fundinn.

Skaut hressilega á fjölmiðla

Ten Hag skaut meðal annars hressilega á fjölmiðla á fundinum, eftir að hafa verið spurður um hvort stór hluti leikmannahópsins yrði seldur í sumar.

„Þetta er bara fyndið. Alla tíð síðan ég kom hingað, á hverju sumri og í hverjum glugga hafa einir 200 leikmenn verið orðaðir við Manchester United. Á hverju sumri er sagt að við séum að fara að selja alla okkar leikmenn, samkvæmt fyrirsögnunum ykkar, og það gengur aldrei eftir. Þið þurfið að bera ábyrgð á fyrirsögnunum ykkar og vera með áreiðanlegar heimildir þegar þið skrifið þessar fréttir," sagði Hollendingurinn á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert