Hagnaður Arion banka undir væntingum

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að afkoma fyrsta ársfjórðungs …
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að afkoma fyrsta ársfjórðungs hafi verið undir markmiðum.

Hagnaður Arion banka á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam um 4,4 milljörðum króna, samanborið við tæpa 6,3 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 9,1%, samanborið við 13,7% á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Arion banka sem birt var nú síðdegis. Hagnaður á hlut var 3,07 krónur, samanborið við 4,32 á fyrsta ársjórðungi síðasta árs.

Í uppgjörinu kemur fram að þóknanastarfsemi bankans hafi skilað lægri tekjum en undanfarna fjórðunga og námu heildarþóknanir 3,4 milljörðum króna. Kjarnatekjur bankans, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur, drógust saman um 2% á milli ára.

Þá kemur fram að lán til viðskiptavina hafi aukist um 2,2% á fjórungnum, en hækkun á lánum til fyrirtækja var 3,2% og 1,4% á lánum til einstaklinga, einkum íbúðalán. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 1,2% á fjórðungnum.

Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 23,2% í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 22,9%.

Minni umsvif í efnahagslífinu

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningunni að afkoma fyrsta ársfjórðungs hafi verið undir markmiðum. Lægri afkoma skýrist fyrst og fremst af lægri þóknanatekjum og háu skatthlutfalli þar sem tap vegna hlutabréfa sem haldið var gegn framvirkum samningum leiði til 38% skatthlutfalls á fjórðungnum.

„Við sjáum að nokkuð hefur hægst á umsvifum í efnahagslífinu í ljósi hárra stýrivaxta og er það eitt af því sem hefur áhrif til lækkunar á þóknanatekjum tímabilsins,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK