Kveikti í sér fyrir utan dómsalinn

Ungur maður kveikti í sér í New York í dag.
Ungur maður kveikti í sér í New York í dag. AFP/Michael M. Santiago

Ungur karlmaður kveikti í sér síðdegis í dag fyrir utan dómsalinn þar sem réttað verður yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Í dag var lokið við að velja í kviðdóminn sem mun dæma í máli forsetans fyrrverandi. 

Maðurinn helti yfir sig eldfimum vökva í Collect-tjarnargarði, sem er hinu megin við götuna frá dómsalnum, og kveikti í sér. Var hann staddur í hluta garðsins sem tekinn hafði verið frá fyrir stuðningsmenn Trump.

Vegfarendur hrópuðu og tóku til fótanna um það bil sem maðurinn stóð í ljósum logum. 

Ekki er ljóst á þessari stundu hvað gekk manninum til.

Maðurinn virtist vera á lífi er hann var færður upp …
Maðurinn virtist vera á lífi er hann var færður upp í sjúkrabíl. AFP/Michael M. Santiago

Virtist vera á lífi

Þeir sem ekki hlupu í burtu frá manninum hlupu honum til aðstoðar og reyndu að slökkva eldinn. Nokkrum mínútum seinna var lögreglan komin á staðinn og reyndi að slökkva eldinn. 

Að því er New York Times greinir frá virtist maðurinn vera á lífi er hann var færður upp í sjúkrabíl og honum ekið á spítala.

Vegfarandi sem varð vitni að atvikinu segir unga manninn hafa kastað bæklingum upp í loftið áður en hann kveikti í sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert