Þyngri refsing fyrir að nauðga stjúpdóttur æskuvinar

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur þyngdi í dag dóm Héraðsdóms Norðurlands yfir Inga Val Davíðssyni, fyrir að nauðga sextán ára stúlku, um hálft ár. 

Héraðsdómur hafði dæmt Inga Val til að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði en Landsréttur þyngdi dóminn í þrjú ár. 

Þá staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um að Inga Val yrði gert að greiða stúlkunni miskabætur að fjárhæð 2.500.000 kr. 

Reyndi að öskra en kom ekki upp hljóði

Ingi Valur var ákærður þann 5. janúar 2023, þá þrjátíu og níu ára gamall, fyrir að hafa nauðgað stúlku á heimili hans í október árið 2021. 

Er nauðguninni lýst í ákærunni sem svo að Ingi Valur hafi dregið niður um stúlkuna buxurnar og haft við hana samræði gegn vilja hennar og þrátt fyrir að hún hafi ítrekað látið hann vita að hún vildi þetta ekki og beðið hann um að stoppa. 

Stúlkan lýsti því enn fremur fyrir Landsrétti að Ingi Valur hafi tekið að snerta læri hennar inni í svefnherberginu á heimili hans umrædda nótt og hún ítrekað sagt nei við hann og að hún vildi þetta ekki. Hún hefði reynt að öskra en ekki komið upp neinu hljóði og frosið þegar Ingi Valur dró niður um hana buxurnar.

Þegar atvikið átti sér stað var stúlkan sextán ára gömul og Ingi Valur þrjátíu og sjö ára en hann var æskuvinur stjúpföður stúlkunnar og tíður gestur á heimili fjölskyldunnar. 

Dómur þyngdur í ljósi alvarleika brotsins

Eins og fram kemur hér að ofan þyngdi Landsréttur dóm héraðsdóms í málinu. Í dómi Landsréttar segir að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að Inga Val hafi ekki áður verið gerð refsins. Jafnframt var litið til þess að brotið var gegn ólögráða einstakling. 

Vegna þessa og í ljósi alvarleika brotsins er það niðurstaða Landsréttar að refsing hans sé réttilega ákveðin þrjú ár. 

Þá var ákvörðun héraðsdóms um miskabætur og sakarkostnað staðfest og Inga Val gert að greiða all­an áfrýj­un­ar­kostnað máls­ins að upp­hæð 2.221.454 kr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert